146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:11]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Við ræðum umhverfismál og fjármál tengd þeim. Þetta eru mál sem eru íbúum þessa lands mikilvæg, bæði í formi beinna lífsgæða en líka í formi þeirrar ímyndar sem landið okkar hefur. Mér hefur sjálfum þótt stundum sem sú ímynd sé örlítið betri en við eigum að mörgu leyti skilið.

Í loftslagsmálum höfum við sett okkur það markmið að græn endurnýjanleg orka verði stærri hluti þeirrar orku sem við nýtum. Það hefur að mörgu leyti tekist á undanförnum áratugum en að einhverju leyti á því formi að við höfum reist álver, haft virkjanir, og þá er stærri hlutdeild af orkunotkun okkar orðin græn og endurnýjanleg.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvaða sýn hún hefur á orkuskipti í tengslum við loftslagsmál og einnig hvar þeir fjármunir sem ættu að fara í þau verkefni sé að finna í þessari áætlun, hver kostnaðurinn sé og hvort hún telji að þeir muni duga til þess metnaðarfulla verkefnis sem fram undan er.