146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:12]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa spurningu um orkuskiptin og hvernig þau geti stuðlað að því að við náum loftslagsmarkmiðum okkar. Þá er því til að svara að orkuskiptin eru á mörgum sviðum augljósasta lausn okkar þegar við fáumst við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Þar eru helstu tækifærin samgöngur, rafbílavæðingin, sparneytnari bílar, metanbílar og bara öll ökutæki sem ganga fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum. Það eru almenningssamgöngur. Þar kemur t.d. borgarlínan sterk inn á höfuðborgarsvæðinu þar sem gert er ráð fyrir að hún gangi fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum. Sjávarútvegurinn: Þar er hægt að beita meiri eldsneytissparnaði með betri skipum, bættum búnaði, loftslagsvænni orkugjöfum, að blanda lífdísli til að mynda, og aukin notkun landrafmagns þegar skipin eru í höfn. Svo er það landbúnaðurinn. Þar má bæta nýtingu búfjáráburðar, bætt geymsla og meðhöndlun á mykju, sem framkallar metangas.

Hv. þingmaður spyr hvaðan peningurinn eigi að koma fyrir þær aðgerðir og hvað þetta kosti. Þessar aðgerðir þurfa ekki að vera það dýrar fyrir skattgreiðendur. Varðandi samgöngurnar t.d. er ríkið ekki að fara að setja upp hleðslustöðvar, markaðurinn sem sér um það. Við þurfum hins vegar að finna upp leiðir til að markaðurinn geti farið að rukka fyrir rafmagnið sem er núna gefið.

En ég fæ að koma betur inn á þetta í næsta andsvari.