146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:15]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir hennar svar. Það gleður mig að heyra að það sé hennar mat að þetta þurfi ekki að kosta skattgreiðendur gríðarlega mikið. Ég held að það sé líka að mörgu leyti rétt nálgun.

Það sem ég hef stundum haft áhyggjur af í tengslum við tækni sem er að ryðja sér til rúms er að við förum í gríðarlega dýrar fjárfestingar sem síðan verða úreltar innan nokkurra ára. Þá sitjum við uppi með nokkurs konar dreifinet, hvort sem það heitir ISDN eða hvað sem er, sem við höfum lagt mikið í að fjárfesta í en er svo rutt úr vegi af annarri og betri tækni skömmu síðar. Þessi nálgun gleður mig að mörgu leyti.

En talandi um tækni þá tel ég mig líka hafa þá skyldu að hugsa aðeins um hvað ef. Það er svo að þó svo að þróun rafmagnsbíla hafi að mörgu leyti tekið stökk að undanförnu þar sem tæknin sem um ræðir þróast er ekki endilega víst að sú tækni muni ná útbreiðslu það hratt að þetta eitt og sér muni duga okkur. Þá velti ég fyrir mér hvort ráðherrann hafi einhverjar aðrar hugmyndir, hvort það að orkuskiptaáætlun okkar takist hvíli á þeim ytri þætti að þeim sem þróa rafbíla takist það vel til að slíkir bílar verði orðnir valkostur við almenna bíla innan örfárra ára.