146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:24]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Takk fyrir þessa spurningu, hún er stór. Við höfum hugsað það þannig að þetta gæti gerst í gegnum loftslagssjóð svokallaðan. Í lögum um loftslagsmál frá árinu 2012 er kveðið á um loftslagssjóð sem á að styðja við verkefni í loftslagsmálum. Hann hefur ekki verið settur á fót. Mér finnst nauðsynlegt að gera það sem fyrst. Það má skoða hvernig fyrirkomulag sjóðsins yrði. Mögulega yrði hann hluti af öðrum sjóðum sem ríkið er með sem styrkja rannsóknir og nýsköpun eða einn og sér en það gæti sparað umsýslu og kostnað og tryggt faglega yfirumsjón. Ég sé hlutverk loftslagssjóðs þannig fyrir mér að hann ætti að vera nýsköpunarhvati til lausna til að ná fram markmiðum loftslagssjónarmiða, ef maður getur sagt sem svo. Við erum enn að vinna í því hvernig við setjum þetta upp. Samkvæmt samþykkt frá Alþingi á að setja þennan sjóð á stofn. Ég sé það fyrir mér að hann geti virkað svona.