146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:32]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að þetta er virkilega metnaðarfull áætlun og framtíðarsýn sem sauðfjárbændur leggja fram Ég fagna henni. Enda hef ég alltaf sagt að bændur sem lifa nú á landsins gæðum og eiga allt þar undir vita manna best að það þýðir ekkert að vera með einhvern losarabrag eða vona hið besta. Það verður að taka af skarið. Þarna hafa sauðfjárbændur svo sannarlega gert það.

Varðandi aðkomu ríkisins að þessum flottu markmiðum höfum við reyndar rætt það við Bændasamtökin að við færum þetta að einhverju leyti inn í aðgerðaáætlun stjórnvalda. Við viljum auðvitað vinna með bændum, t.d. í að fylla upp í þá skurði sem hægt er að fylla upp í til að endurheimta á votlendi. Ég sé það alveg fyrir mér og á sama hátt og bændum var borgað fyrir að skera landið sitt þvers og kruss og grafa skurði ættum við að geta komið til móts við það að fylla aftur upp í þá að einhverju marki.

Þetta hefur ekkert verið útfært en auðvitað fá bændur nú þegar greitt frá ríkinu fyrir sína framleiðslu. Það er auðveldara um vik, ekki bara fyrir stjórnvöld heldur allan almenning, að gera það áfram og vel ef þeir fjármunir fara í svona brýn málefni og verið sé að styðja við svona góða sýn. Það liggur dálítið í augum uppi.