146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:40]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra yfirferð hans um málaflokkinn. Það er engum blöðum um það að fletta að samgöngumálin hafa verið í fjársvelti hér síðustu árin. Ansi margir bjuggust við að úr því yrði bætt og urðu fyrir vonbrigðum með að svo var ekki. Þrátt fyrir þá viðbót sem hæstv. ráðherra talar um í máli sínu, og komið er inn á í fjármálaáætlun, er staðan engu að síður sú að við lok áætlunarinnar hefur Vegagerðin aðeins 5–7 milljörðum meira á milli handanna en við upphaf hennar. Það hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir hæstv. ráðherra. Eða hvað? Í það minnsta voru það vonbrigði fyrir hv. formann fjárlaganefndar sem sagði hér í gær, með leyfi forseta:

„Já, ég skal alveg viðurkenna það að ég er skítsvekktur yfir því að við séum ekki jafnvel með meira fjármagn til samgöngumála.“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ósáttur við þá upphæð sem sett er í þennan málaflokk. Eins langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í orð hans sjálfs og eins orð hv. formanns fjárlaganefndar sem talaði í gær um það, með leyfi forseta:

„… hvernig við getum beitt eignasafni okkar til þess að sækja hraðar fram og hvernig við nýtum eignir ríkisins og hvaða eignir við getum lagt frá okkur til þess að sækja hraðar áfram, eins og t.d. í vegamálum.“

Er ríkisstjórnin með áform um að leggja einhverjar eignir til hliðar eins og sagt er hér, þ.e. selja þær, til að geta sótt áfram í vegamálum? Mig langar líka að spyrja hér að lokum í fyrra andsvari mínu: Hver er staðan með framlög til samgöngumála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á þessum tíma?