146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:46]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ekki veit ég hvort við náum að malbika hraðbraut til himna alveg strax. Ég fór reyndar strax að velta því fyrir mér hver veggjöldin gætu mögulega verið á þeirri leið. Það er áhugaverður vinkill.

Hér er því haldið fram að ríkisstjórnin vilji ekki afla tekna til að fara í frekari innviðaframkvæmdir. Það er auðvitað alrangt. Ríkisstjórnin hefur meðal annars viðrað ákveðnar skattkerfisbreytingar til að afla aukinna tekna sem nefndar hafa verið. Sú vegferð sem við erum á í samgönguráðuneytinu núna, með þeim hugmyndum sem við erum að vinna að, snýr að því að afla frekari tekna. Það snýr að því að láta hinn mikla straum ferðamanna taka þátt í þessari uppbyggingu með okkur eins mikið og raunhæft er. Ég held að það geti verið mjög álitlegur kostur. Það er ekki tilviljun að þetta er sú leið sem margar þjóðir fara en um þetta þarf að nást nokkuð víðtæk samstaða ef þetta á að geta náð fram að ganga. Það myndi örugglega verða til þess að hægt yrði að stíga mjög stórtæk skref á þessu sviði. Ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að við erum að koma út úr mögrum árum. Það er í mörg horn að líta. Viðbótin á þessu ári eru nokkuð margir milljarðar. Ætli þeir séu ekki nálægt 30–40 milljörðum sem er viðbótin á þessu kjörtímabili inn í þennan málaflokk. Það eru miklir peningar. En eins og ég hef áður sagt: Betur má ef duga skal.

Vegur yfir Dynjandisheiði, hvernig sem hann verður útfærður á endanum, er í mínum huga hluti af Dýrafjarðargöngum. Það er til lítils að gera þau ef við klárum ekki það verkefni. Það verður á forgangslista innan þess ramma sem við höfum úr að (Forseti hringir.) spila.

Ég var nú bara ekki búinn að fletta því upp hvert hlutfallið er af vergri landsframleiðslu í lok kjörtímabilsins miðað við þær áætlanir sem liggja fyrir, en það ætti að vera auðvelt að sjá það.