146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:55]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á áðan er það verkefni ráðuneytisins, og þar er verið að auka verulega í, að styrkja sóknaráætlanir landshluta. Það er einmitt stórt skref í því að auka lýðræðislega þátttöku íbúanna á svæðunum í því hvernig þeir ráðstafa því fé sem til þessara málaflokka fer og að mínu viti mjög mikilvægt. Um þetta var pólitískur ágreiningur á sínum tíma en um það er mjög víðtæk og góð samstaða í dag og reynslan af sóknaráætlun er góð. Við horfum þar til aukinnar lýðræðislegrar aðkomu sveitarfélaganna, að þau ráðstafi meira innan sinna svæða því sem til ráðstöfunar er á hverjum tíma.

Vaðlaheiðargöng eru, eins og við vitum öll, umdeilt verkefni og var tekin um þau ákvörðun á sínum tíma. Það hafa síðan komið upp þau óhöpp á þeirri vegferð sem þekkt eru. Vaðlaheiðargöng eru utan samgönguáætlunar og þannig utan framkvæmda á vettvangi ráðuneytisins.

Varðandi aukna ríkisábyrgð vegna dýrari framkvæmda þar en var upphaflega reiknað með er við fjármálaráðherra að eiga. Það er ráðuneytið sem hefur með þau mál að gera.

Hvað varðar hvort það sé gáfuleg tilhögun held ég að við getum þó öll verið sammála um að það væri tæplega gáfulegt að hætta framkvæmdum. Ég held að við þurfum að sameinast um að ljúka þeim þótt umdeilt sé hversu gáfulegt hafi verið yfir höfuð að fara í þær á sínum tíma. Um það eru deildar meiningar.

Ég hef svo sem ekki nein töluleg gögn fyrir framan mig en hef í viðræðum mínum við þá sem þarna eru fengið upplýsingar um að með vaxandi umferð, sem er auðvitað mæld reglulega (Forseti hringir.) og er hluti af viðskiptaáætlun þeirra, hafi forsendurnar fyrir því að greiða upp þau lán sem liggja til grundvallar ekki breyst.