146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:08]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni, það er ekki bara úti um land sem staðan er erfið í samgöngumálum heldur ekki síður hér á höfuðborgarsvæðinu. Mörg stór, brýn verkefni bíða okkar hér. Það er ekki tiltekið sérstaklega í þeirri áætlun sem við ræðum nú hvað sé sérstaklega til þeirra verkefna. Á því er tekið í samgönguáætlun. Samningur var gerður árið 2012 við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um að stærri framkvæmdum í vegakerfinu yrði frestað og forgangsraðað í þágu almenningssamgangna. Þannig fer um milljarður á ári í að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Árangurinn af því, miðað við þær tölur sem ég hef fengið, er ekkert sérstakur og nær kannski ekki þeim markmiðum sem lagt var upp með í þeim samningi. Það er tilefni til að endurskoða hann, ekki síst með tilliti til þeirra nýju hugmynda sem komið hafa fram hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu um svokallaða borgarlínu sem á að vera ný leið til að efla enn frekar almenningssamgöngur.

Þær hugmyndir sem við vinnum að, svo að ég komi aftur að því, snúa þó nokkuð mikið að höfuðborgarsvæðinu því inni í þeirri úttekt er frágangur á veginum alveg í gegnum Hafnarfjörð. Við erum að skoða Sundabraut. Þetta eru mjög mikilvægir þættir. Ártúnsbrekkan ber orðið ekki þá umferð sem um hana fer á hverjum degi, ef ég man rétt milli 70–80 þús. bílar. Það hefur verið andstaða hjá borgaryfirvöldum, mjög mikil, við að fara í mislæg gatnamót sem að mati Vegagerðarinnar og okkar í samgönguráðuneytinu eru nauðsynleg. Ég tel því mikilvægt að við endurskoðum þann samning sem var gerður á sínum tíma (Forseti hringir.) og þá í tengslum við þessa vinnu við borgarlínuhugmynd. Ef við höfum aukið ráðstöfunarfé, hvaða leið sem við náum, mun þess gæta hér á höfuðborgarsvæðinu líka.