146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Það er nokkuð sérstakt að fá þetta tækifæri og um leið mikill heiður að fá að taka þátt í umræðu um fjármálaáætlunina á málefnasviði landbúnaðar og sjávarútvegs. Þetta fyrirkomulag er skemmtilegt og áhugavert, hvernig þingið byggir umræðuna upp til að reyna að draga fram sem mest uppbyggilega, upplýsta og málefnalega umræðu, og af því að maður á sér líka einhverja fortíð í pólitíkinni finnst mér gaman að bera þessi vinnubrögð saman við það sem var á árum áður. Ég ætla ekki endilega að fara að gagnrýna það sem var en vil hins vegar segja að mér finnst þetta vera framför. Mér finnst gaman að sjá hvernig ráðherrar kynna og setja fram sín mál og líka þingmenn, sama í hvaða flokki þeir eru. Ég er búin að fylgjast aðeins með því í dag hvernig menn setja sig inn í málin og mér finnst umræðan almennt hafa verið uppbyggileg og upplýst.

Við í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu reynum að nálgast þessar grundvallaratvinnugreinar okkar Íslendinga á ekkert ósvipaðan hátt. Þetta eru auðlindagreinar. Ég dreg fram að í starfsemi á þessu málefnasviði, sem varðar annars vegar hagnýtingu lifandi auðlinda hafs og vatna og hins vegar hagnýtingu auðlinda lands til matvælaframleiðslu sem er á ábyrgð þessa ráðuneytis, skiptist málefnasviðið í þessa tvo málaflokka, annars vegar stjórn landbúnaðar, sjávarútvegs og fiskeldis og síðan það sem skiptir miklu máli, bæði til skemmri en ekki síður til lengri tíma, rannsóknir, þróun og nýsköpun fyrir báðar greinarnar. Það er algjört lykilatriði til að við getum haldið áfram að vera í forystu. Ég sé líka og veit eftir að hafa kynnt mér enn betur undirstöður landbúnaðarins að þar eru líka mikil sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga þegar við beinum enn frekari sjónum að sjálfbærninni, umhverfinu, heilbrigði og heilnæmi okkar Íslendinga og okkar landbúnaðarframleiðslu.

Ég vil draga fram framtíðarsýnina og meginmarkmið. Annars vegar er framtíðarsýnin hjá okkur að Ísland verði leiðandi í framleiðslu heilnæmra matvæla á grunni sérstöðu, hreinleika umhverfis, fagmennsku og gæða. Þetta er dregið fram í landbúnaðarkaflanum en þetta er að breyttu breytanda nokkurn veginn það sama fyrir sjávarútveginn þar sem við erum algjörlega leiðandi í sjálfbærri nýtingu lifandi auðlinda hafs og vatna og í framleiðslu heilnæmra afurða á grunni sérstöðu, hreinleika umhverfis, fagmennsku og gæða.

Það var svolítið gaman að upplifa það sem ég upplifði á sínum tíma sem menntamálaráðherra, þá fóru menntamálaráðherrar víða um Evrópu til Finnlands í heilu flugförmunum, eins og einn ráðherrann í Finnlandi sagði, jafnvel bílförmunum, að kynna sér stefnuna þar, en hingað hafa komið á síðustu vikum margir hópar, m.a. frá Bretlandi, ekki síst út af Brexit, til að kynna sér íslenska fiskveiðistjórnarstefnu sem byggir einmitt á grunni okkar vísindarannsókna, hvernig við byggjum upp sjálfbærnina og berum virðingu fyrir henni. Þar hafa allir helstu hagsmunaaðilarnir lagt sig fram, hvort sem það eru sjómenn, fiskvinnslufólk, útgerðarmenn, þeir hafa lagt sig fram um að byggja upp þessa atvinnugrein sem gerir okkur framúrskarandi.

Meginmarkmið málefnasviðsins á sviði sjávarútvegs er að auka samkeppnishæfnina enn frekar. Hún er mikil en hún getur aukist enn frekar á sviði sjávarútvegs. Ég vil líka draga fram fiskeldið. Þetta gerum við á grunni efnahagslegs, umhverfislegs og samfélagslegs jafnvægis. Ég held að þessir þrír þættir skipti miklu máli ef við stillum okkur inn á samkeppnishæfnina. Ef við byggjum hana á grunni efnahagsmála, umhverfismála og samfélagslegrar vitundar og jafnvægis held ég að við verðum í þokkalega góðum málum.

Mig langar að draga fram varðandi landbúnaðinn þar sem meginmarkmiðin eru svipuð, að auka samkeppnishæfnina á sviði matvælaframleiðslu sem byggir á þessum sömu þáttum, efnahagslegum, umhverfislegum og samfélagslegum þáttum, að þar eru gríðarleg sóknarfæri eins og ég gat um áðan. Það gerum við með því að efla enn frekar menntagrundvöllinn og rannsóknagrundvöllinn. Ég beini því til okkar allra að við tölum um þekkingarlandbúnað og reynum að ýta undir framþróun hans. Það þýðir að við þurfum (Forseti hringir.) að styðja við okkar helstu rannsóknastofnanir. Ég hefði haft gaman af að ræða m.a. eflingu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri með ýmsum úrræðum en ég kem að því síðar, hæstv. forseti.