146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er mjög mikilvægt að stofnanir eins og Hafrannsóknastofnun hafi á föstum fjárlögum fjármuni til að sinna hlutverki sínu en þurfi ekki að sækja um í uppbyggingarsjóði sem sjókvíaeldisfyrirtækin greiða í í dag en þá er það undir hælinn lagt hvað fæst til að sinna rannsóknum á burðarþoli svæða. Mig langar líka að spyrja: Er gert ráð fyrir því, í framhaldi af því að þessi starfshópur um sjókvíaeldi skili af sér, að lagt verði fram lagafrumvarp um þessi mál? Mjög brýn þörf er á því að þessi grein vaxi í sátt við umhverfið og aðrar atvinnugreinar. Varðandi orkuskipti langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða fjármunir eru ætlaðir í að þróa það að skipaflotinn fari að einhverju leyti að nýta aðra orkugjafa? Og hvað er gert ráð fyrir miklum fjármunum í að mæta loftslagsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna? Þetta fellur kannski saman að þessu leyti.

Aðeins varðandi landbúnaðarmálin en annar þingmaður Vinstri grænna kemur betur inn á þau á eftir. Gerir fjármálaáætlun ráð fyrir því að nýr búvörusamningur verði fjármagnaður að fullu? Og varðandi skógræktina: Verða framlög ríkisins til landshlutaverkefna í skógrækt aukin eða skorin niður næstu fimm árin?

Ég spyr almennt hvort einhverjar breytingar verði á opinberu stuðningskerfi ríkisstjórnarinnar gagnvart landbúnaði eða öðrum atvinnugreinum.