146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Aðeins að spurningu hv. þingmanns um veiðigjöldin, hvort afslátturinn verði áfram. Ég sé ekki fyrir mér að framlengja þá tímabundnu lagagrein að afslátturinn verði áfram. Alla vega er fyrirkomulagið eins og það er núna þannig að það rennur ekki eingöngu til minni útgerða, það liggur ljóst fyrir. Ég held að við yrðum að fara aðrar leiðir en að endurnýja eða framlengja afsláttarákvæði sem er í raun ekkert annað en lækkun veiðigjalda til tiltekinna útgerða. Engu að síður standa ákveðnar útgerðir, t.d. í kjördæmi hv. þingmanns, frammi fyrir miklum erfiðleikum, við gerum okkur grein fyrir því. En það eru fleiri sem standa frammi fyrir þeim erfiðleikum í ljósi gengis og stöðu krónunnar.

Varðandi lagafrumvarp um fiskeldismál þá ítreka ég að það skiptir gríðarlega miklu máli að við hér í þinginu verðum í samstarfi. Það þýðir að í sumar þurfa atvinnuveganefnd og umhverfisnefnd þingsins líka að koma saman, m.a. þegar hópurinn skilar sem ég vona að gerist í lok júní eða einhvern tímann í júlí, til að leggja mat á það hvernig við ætlum að vinna málið áfram. Ég sé fyrir mér að ef þingið og nefndirnar eru einhuga um að við eigum að vinna lagafrumvarp úr því sem þar kemur fram þá gerum við það. Ég tel mikilvægt, ég undirstrika það, að fara varlega, fara rólega, en við ætlum okkur að byggja upp þessa atvinnugrein til lengri tíma. En við förum varlega. Að öðru leyti þá bíðum við einfaldlega eftir þessari niðurstöðu.

Varðandi búvörusamninginn þá er gert ráð fyrir því að áfram verði staðið við hann. Það er engin ástæða til annars. Við erum búin að segja það. Ég dreg ekki dul á það að ég var gagnrýnin á búvörusamninginn, en það er líka margt mjög gott í honum sem við eigum að nýta okkur. Við eigum að skoða og hlusta vel á það sem endurskoðunarnefndin setur fram, fólk úr ólíkum áttum. Ég bind vonir við að við náum fram skynsamlegum breytingum á búvörusamningunum en við búvörusamninginn verður staðið.