146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:02]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Frú forseti. Þá víkjum við sögunni að landbúnaðinum. Eftir því sem ég kemst næst virðist það vera forgangsmál að fækka búum og auka framleiðni þeirra búa sem eftir eru. Það vekur mig til umhugsunar um að tvítóna stef í málflutningi virðist nokkurn veginn stefna í sömu átt í landbúnaði og kvótasetning veiða innan landhelgi gerði forðum. Ég verð því að spyrja ráðherrann: Er ætlunin að fækka bændum?

Með leyfi forseta:

„Stuðningur stjórnvalda við starfsemi landbúnaðar hefur hingað til einkum byggst á fjárhagslegum og byggðatengdum aðgerðum í þágu hefðbundinna búgreina. Stefna stjórnvalda er að breyta áherslum við stjórnun greinarinnar til að auka verðmætasköpun og stuðla að framþróun þekkingarlandbúnaðar.“

Hvað þýðir það í framkvæmd?

Undir lið 4, Markmið, mælikvarðar og aðgerðir. „Við markmiðssetningu er litið til þess að skapa jafnvægi milli efnahagslegra, umhverfislegra og samfélagslegra þátta.“ Kunnuglegt stef raunar. Nákvæmlega sama stef er nefnt í sömu markmiðssetningu í sjávarútvegi og fiskeldi.

Markmið I. „Árleg aukning framleiðni. Markmiðið felur í sér viðmið um árlega aukningu framleiðni greinarinnar á grunni framleiðni vinnuafls.“ Þessum markmiðum er ekki hægt að fylgja nema fækka búum eða stækka einingarnar eða auka framleiðslu. Ég sé ekki hvernig það verður gert öðruvísi.

Það er markmið út af fyrir sig en ég get ekki sagt að ég sé fylgjandi nálguninni. Ég sé vissa sérstöðu í landbúnaði landsins. Við getum hæglega framfleytt okkur með auknum áherslum á lífræna ræktun. Einnig búum við við einkar hagfelldar aðstæður til grænmetisræktar og sé ég það sem vaxtarsprota, en vegna brenglunar í flutningskostnaði, raforku og svo orkuverðs sjálfs er það ekki jafn arðbært og ætla mætti. Það er skrýtið að sjá ekki tækifærin sem felast í bindingu koltvíoxíðs við grænmetisrækt og horfa frekar til þess að senda orkuna til Bretlands með sæstreng. Af hverju bindum við ekki þessa orku og gróðurhúsalofttegundirnar í tómötum og agúrkum? Með hvaða beinu aðgerðum ætlar hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að ná fram þessari framleiðniaukningu? Hvernig hugnast hæstv. ráðherra hugmyndir um að nýta jarðvarma og raforku í stórfelldum mæli til útflutnings á grænmeti?