146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Þetta síðasta hugnast mér það bara ljómandi vel. Ef við skoðum þróunina í grænmetinu hjá garðyrkjubændum sjáum við að hún er mjög jákvæð á því sviði þar sem opnað var fyrir innflutning. Nú er meiri samkeppni á þessu sviði. Auknir voru styrkir og beingreiðslur til grænmetisbænda, en þeir hafa svo sannarlega staðið sig vel í samkeppninni, enda hafa þeir aukið hlutdeild sína á markaði og ekki bara það, þeir hafa komið með fjölbreyttari framleiðslu. Ýmsir sprotar hafa orðið til í gegnum þá garðyrkju sem verið hefur okkur neytendum hér á Íslandi mikill ávinningur.

Lífræn ræktun, ég kom að því máli í þingsal um daginn og svaraði fyrirspurn frá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur. Ég vil beita mér fyrir því að við mörkum okkur stefnu í lífrænni ræktun. Ég held að tilvalið væri að byrja að skoða sauðfjárrækt í því efni og hyggst einmitt stofna til starfshóps hvað það varðar.

Aðrir þættir. Um daginn komu nýjar tölur frá kúabændum, í síðustu viku frekar en þarsíðustu viku, þar sem fram kemur að núverandi kerfi stuðlar að ákveðinni hagræðingu og samþjöppun í greininni. Kúabændum hefur fækkað um tæplega 50 á síðustu árum, að mig minnir, þannig að kerfið er á þeirri leið.

Gott eða vont. Ég held að það sé hvort tveggja. Það er annars vegar þessi rómantík að reyna að halda landinu sem víðast í byggð. Ég held að við eigum að reyna að ýta undir það sem skiptir máli og nota þær leiðir sem við höfum til þess að tryggja byggðafestu, veita bændum, hvort sem er í sauðfjárrækt eða kúabúskap, sem mest frelsi til þess að velja þær greinar sem þeir telja henta fyrir jörðina og fyrir þá sjálfa. Ég bind vonir við að endurskoðunarnefndin varðandi búvörusamninginn muni fara vel yfir það sem (Forseti hringir.) hv. þingmaður kom inn á, með það að markmiði að auka svigrúm og athafnafrelsi bænda og styrkja neytendur í landinu.