146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:06]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég mun halda mig á þurru landi enda á heimavelli, ég er af bændaættum. Landbúnaðurinn faðmar vítt svið og ég ætla ekki að ræða endurskoðun búvörusamninga 2019 eða fjármál því tengd, ég ætla að einbeita mér að einum gildum þætti greinarinnar. Sauðfjárbúskapur er burðarás margra byggða og er nokkuð traustur, það eru innan við 2.500 bú, stór og smá, og verður mjög sennilega svo í nokkur ár fram undan, þá í samhengi við bætta beitarstjórnun og framfarir í landnýtingu. Nú eru 2.000–2.500 tonn af kindakjöti framleidd árlega umfram neyslu sem reyndar eykst vegna fleiri ferðamanna en bændur hyggja á að koma vörunni æ meira og fyrir betra verð til útlanda.

Þá er spurningin til hæstv. ráðherra þessi, í ljósi ríkisfjármálaáætlunar: Verður lagt í frekari aðstoð við bændur og byggðir umfram t.d. 100 millj. kr. eins og fékkst til markaðssóknar í útlöndum á þessu ári?

Að öðru: Nýsköpunar- og þróunarstarf fer ekki vel út úr fjármálaáætluninni, svarar til 100–120 millj. kr. á ári í aukin framlög. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að fjármunir, svo um munar, gangi til þróunarstarfs á sviði sauðfjárbúskapar og sauðfjárafurða? Slíkt framlag til nokkurra ára myndi efla það starf sem sauðfjárbændur stefna nú að.

Og svo að enn öðru: Aðeins hefur verið minnst á MAST hér eða Matvælastofnun, hún hefur mörg og mikilvæg verkefni með höndum og þeim fjölgar hratt. Það skýtur þá skökku við að MAST er gert að hlíta 2% aðhaldskröfu í fjármálaáætlun að því er ég fékk upplýsingar um. Þá spyr ég: Hvernig rímar það við orð hæstv. ráðherra um að gæta vel að stofnuninni?