146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:23]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Það er rétt að undirstrika að aðhaldskrafan er réttilega 2%, en hún er 2% á árinu 2018, síðan fer hún lækkandi 2019 og 2020, þannig að því sé haldið til haga. Ég hefði gjarnan viljað sjá meiri fjármuni til Hafrannsóknastofnunar, það er ekkert að því að viðurkenna það. En ég undirstrika líka að stóru pólitísku skilaboðin sem við fengum, sem kjósendur fluttu okkur hingað inn á Alþingi, voru þau að styðja fyrst og fremst við heilbrigðiskerfið, aldraða, öryrkja, félagsmálin og það er ríkisstjórnin að gera.

Ég tel mikilvægt og mig minnir að við drögum það fram í fjármálaáætluninni að Hafró hafi líka þetta svigrúm til að fara í rannsóknir á uppsjávarstofnunum okkar. Það vantar frekari rannsóknir á þeim og peninga í það. Það vantar líka fjármagn í fleiri úthaldsdaga fyrir Hafró til að geta sinnt nákvæmlega því. En ég vil líka geta þess að verkefni eru ekki alltaf viðvarandi, sum verkefni hætta, önnur koma inn. Það er ekki alltaf þannig að bæta eigi í við ríkisstofnanir. En ég vil samt halda því viðhorfi mínu hér uppi að það þarf að taka sérstaklega tel á málefnum Hafrannsóknastofnunar út af fiskeldinu. Það sama gildir með MAST og það sama gildir með Fiskistofu. Ef við ætlum að gera þetta að þeirri alvöru atvinnugrein sem sátt ríkir um þarf sérstaklega að gæta þess að við styðjum við þessar stofnanir þannig að nýjar atvinnugreinar á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar geti blómstrað.