146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:29]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þá er komið að seinni hálfleik og mig langar mig að taka annað mál sem er landbúnaðurinn. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna í stjórnarsáttmálann þar að lútandi þar sem stendur:

„Breytingar á búvörusamningi og búvörulögum skulu miða að því að leggja áherslu á aukna framleiðni, hagsmuni og valfrelsi neytenda og bænda og fjölbreytt vöruúrval. […] Endurskoða þarf ráðstöfun innflutningskvóta og greina forsendur fyrir frávikum frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn og gera viðeigandi breytingar.“

Virðulegi forseti. Ég vil breytingaskeið, eins og mætti kannski kalla þetta, það er svo sem viðeigandi líka. En þessi fótspor eru greinileg í landbúnaðarkafla fjármálaáætlunarinnar þar sem finna má markmið um aukna sátt um fyrirkomulag og starfsemi landbúnaðar til að stuðla að frekari fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi greinarinnar, svo ég haldi áfram að lesa upp úr þessum tímamótaplöggum hér.

Einn af þeim þáttum sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur þegar boðað lýtur að endurskoðun á undanþágum mjólkuriðnaðarins frá ákvæðum samkeppnislaga. Ég hef mikinn áhuga á því að heyra frá hæstv. ráðherra í hvaða farvegi það mál er statt núna. Mig langar líka að biðja hæstv. ráðherra að flytja fréttir af boðaðri endurskoðun á leiðum vegna úthlutunar tollkvóta fyrir landbúnaðarvörur. Aftur minni ég hæstv. landbúnaðarráðherra á að hér stendur óþolinmóð kona.