146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:43]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fá að tipla á fáeinum atriðum, ganga yfir sjó og land, sem eru málasvið hæstv. ráðherra.

Íslenska krónan sýnir mikla styrkleika þessa dagana. Hún hnyklar vöðvana. Þetta fer henni einhvern veginn ekki vel og henni líður ekki vel með þetta og hún verður út undan í World Class. Og við höfum ekki séð allt því að næstu tvö til þrjú árin mun krónan styrkjast enn. Það er haft á orði að útgerðin eigi í erfiðleikum í dag, a.m.k. hluti af henni. Stærstu útgerðirnar plumi sig allvel enn þá en minni útgerðirnar síður. Telur hæstv. ráðherra hæstv. að það þurfi hugsanlega að grípa til einhverra sértækra, hastarlegra aðgerða gagnvart minni útgerðum í landinu?

Annað sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig sér ráðherra fyrir sér að tekjur okkar allra landsmanna af sameiginlegum auðlindum í hafinu þróist á þessu nýja tímabili okkar sem við erum að tala um? Byggjast einhverjir þættir þessarar áætlunar á því að hluti aflaheimilda fari á markað? Hvað telur hún að það muni skila okkur miklum ávinningi? Hvaða áhrif telur hún að endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins muni hafa áhrif á greinina á þessu tímabili, hvort og hvernig?

Svo maður drífi sig úr bússunum, aðeins varðandi sjálfbærni. Hvernig sér ráðherra fyrir sér sjálfbærni í landbúnaði, aðlögun framleiðslu sem miðist við markaðaðstæður fyrst og fremst innan lands, niðurgreiðslur og ég vísa kannski líka til háleitra markmiða sauðfjárbænda sem við vorum að frétta frá þeim á dögunum? Hvenær gerir ráðherra ráð fyrir að samkeppnismálin í mjólkuriðnaði verði komin í það horf sem hún stefnir að? (Forseti hringir.) Hvaða áhrif telur hún að það hafi á greinina og framleiðendur?