146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:46]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Minni útgerðir, sértækar aðgerðir. Ég er ekki hrifin af sértækum aðgerðum. Ég vil frekar vinna að því að búa til almennar leikreglur sem eru gagnsæjar fyrir alla, menn viti að hverju þeir ganga. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur í þingsal að ná þessari sátt sem margir telja óraunhæft að ná en ég tel að það sé hægt til þess að útgerðin fyrst og síðast geti búið við stöðugleika til lengri tíma. Það er enginn stöðugleiki fólginn í því að á fjögurra ára fresti og jafnvel á hverju einasta ári sé rifist um það hvað útgerðin eigi að borga fyrir aðgang og nýtingarréttinn að auðlindinni. Þess vegna þarf að ná niðurstöðu í þessu máli, bæði fyrir útgerðina og fyrir samfélagið allt.

Ég hef fengið þessa spurningu fyrr í dag: Á að framlengja afsláttinn? Afslátturinn í dag, það er mikill misskilningur þegar menn halda að hann sé eingöngu til minni útgerða. Hann er það ekki. Ég tel að það þurfi að fara aðrar leiðir en að framlengja afsláttinn. Ég mun ekki beita mér fyrir því að hann verði framlengdur.

Varðandi endurskoðunina þá ætla ég að beina því til nefndarinnar að hún klári á þessu ári til þess að geta lagt fram frumvarp strax á næsta vorþingi í þessa veru. Ég vil segja um þær leiðir sem á að fara að við í Viðreisn höfum talað mjög skýrt fyrir markaðsleiðinni. Við viljum gjarnan að sú leið verði farin. Þetta mun nefndin skoða. Hún mun skoða m.a. þá leið og núverandi kerfi og jafnvel fer hún yfir hugsanlega auknar skattaálögur á greinina. Það eru ýmsar leiðir sem hægt er fara til þess að ná í gjaldið sem greiða þarf fyrir nýtinguna af auðlindinni. Það er hlutverk þessarar nefndar sem vonandi tekur til starfa innan tíðar en hana munu skipa fulltrúar allra hinna sjö pólitísku flokka sem eru á þingi.