146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:10]
Horfa

Gunnar Hrafn Jónsson (P):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar á því ef ég móðgaði hæstv. ráðherra með því að gera persónu hans að stóru atriði í þessu máli, en mér finnst þetta skipta það miklu máli að ég vil að fólk muni eftir þessu augnabliki þegar fram sækir. Hæstv. ráðherra hefur vissulega mátt þola margt ósanngjarnt eins og ég sagði áðan, það var ekki mín ætlun að bæta í þá hít. Ég tek sterkt til orða því að við erum að ræða alvarlega hluti. Á þeim stutta tíma sem ég hef setið á Alþingi finnst mér stundum eins og hér sé ákveðið leikrit í gangi inn á milli. Ég tek ekki oft til máls í þessum þingsal og aldrei nema mér liggi raunverulega eitthvað á hjarta. Ég hefði sennilega getað sagt þessi sömu orð við hæstv. ráðherra undir fjögur augu ef það hefði ekki tekið hann margar vikur að finna tíma til að eiga með mér fund, en það er annað mál.

Ég kann illa við að vera að berja á honum, en hann er sennilega samviska ríkisstjórnarinnar. Samt er það algengasta óskin sem ég heyri þegar ég geng í gegnum miðbæinn og spjalla við fólk, þeir biðja mig nánast alltaf, kjósendur, að berja á hæstv. Óttarri Proppé í pontu Alþingis, ekki af því hann sé eitthvað verri en allir hinir í ríkisstjórninni, heldur einmitt þveröfugt. Skjólstæðingar hans í heilbrigðiskerfinu eru einmitt vonsviknir af því að þeir bjuggust við allt öðru úr þessari átt. Ég reyni mitt besta á hverjum degi til að vera bjartsýnn. Ég veiti því skilning að hæstv. ráðherra er í flokki sem kennir sig við bjarta framtíð, en það eru skil á milli bjartsýni og sjálfsblekkingar, frú forseti.

Það er ekki ástæða til bjartsýni þegar stjórnvöld setja þjóðina í spennitreyju nýfrjálshyggju í fimm ár, byggjandi þá fáránlegu áætlun sína á því að hér verði lengsta og mesta hagvaxtarskeið í allri Íslandssögunni. Síðan fær maður þau svör frá fleiri en einum hæstv. ráðherra að eftir þetta allt saman, þetta gjörsamlega makalausa hagvaxtarskeið, ef kraftaverk á sér stað, þá verði fyrst hægt að ráðast í alvöru innviðauppbyggingu. Þetta eru órar eða lygi, gildir þá einu hvort menn eru að ljúga að sjálfum sér eða öllum öðrum. Þessi fjármálaáætlun er ekki aðeins táknræn fyrir hvert við stefnum núna heldur bindandi. Ég held því miður að við eigum öll eftir að muna eftir þessu kvöldi þegar við vöknum upp við vondan draum innan fárra ára og fjármálaáætlunin er orðin myllusteinn um háls þjóðarinnar.