146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:15]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Þetta er ein mikilvægasta umræðan sem við tökum í þessum sal. Það eru auðvitað forréttindi að búa á landi þar sem ríkir þverpólitísk samstaða um að heilbrigðisþjónusta skuli vera eins góð og mögulegt er og fyrir alla. Þó að það sé auðvitað hlutverk okkar að takast á um hvernig nákvæmlega skuli gera það eru það engu að síður forréttindi.

Mig langaði að fá að eiga samtal við hæstv. ráðherra. Mig langar í fyrsta lagi að staldra aðeins við umræðuna um byggingu nýs spítala. Oft hefur verið komið inn á það í umræðum hér, en þá yfirleitt undir ákveðnum formerkjum. Ég ætla ekki að alhæfa neitt en ég hef heyrt mikið um að fyrir utan byggingu nýs spítala muni heildarframlög aukast um svo og svo mikið. Tölurnar eru u.þ.b. þannig, að mig minnir, að 20% heildaraukning verði í framlögum til sjúkrahúsþjónustu. Af því eru (Gripið fram í: Nei.) það 9% yfir tímabilið, ef frá er talin bygging nýs spítala — ef ég fæ að halda áfram með það. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) (Gripið fram í.) Ég held þá bara áfram, takk fyrir það.

Mig langaði aðeins að segja að það er ótrúlega stórkostlegt að við séum að byggja þennan spítala. Það er auðvitað partur af þeirri heilbrigðisþjónustu sem við búum við hér. Alveg eins og laun læknanna er þessi bygging partur af heilbrigðiskerfinu og það skiptir máli. Ég vil bara óska okkur öllum til hamingju með að það skref hefur verið stigið, að fjármunir hafi verið settir til hliðar af síðustu ríkisstjórn og því hefur verið haldið áfram núna. Ég vildi bara minna á hversu mikilvægt það er. Mig langar að heyra hvort ráðherra sé ekki sammála mér um það.