146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég vil taka fram að hv. þingmaður talaði um að aukningin til spítalanna væri 22%, aukningin á tímabilinu til allra heilbrigðisstarfseminnar er 22%. Nýr spítali er mjög stór hluti af því, u.þ.b. helmingur af heildaraukningunni.

Ég verð að taka undir það að nýr spítali er mjög mikilvægur. Ég þekki þar úr fyrra lífi mínu í borgarstjórn Reykjavíkur að skipulagsvinna fyrir nýjan spítala við Hringbraut var hafin í Reykjavík árið 1975 og höfum við verið að vinna markvisst að þessari uppbyggingu núna í að verða 20 ár, ef ekki lengur. Það var í raun og veru á tíma þarsíðustu ríkisstjórnar sem er farið af stað með verkefnið Nýr Landspítali – háskólasjúkrahús, í hönnun. Á síðasta kjörtímabili var hafin bygging sjúkrahótels á lóðinni sem verður tekið í notkun seinna á þessu ári.

Þetta eru stórkostlegar fréttir. Ég ætla alls ekki að eigna mér eða þessari ríkisstjórn þetta verkefni, en það er mjög mikilvægt og merki um forgangsröðun í þessari fjármálaáætlun að staðið sé við þessar áætlanir og það sé staðið við að klára meðferðarkjarnann fyrir árið 2023, eins og tekið er fram í stjórnarsáttmálanum og fjármálaáætlun gerir ráð fyrir.

Nýr spítali er ekki bara mikilvægur sem hús heldur ekki síður sem starfsumhverfi vegna þess að heilbrigðiskerfið er náttúrlega ekki síst starfsfólkið sem við það starfar. Sérfræðingarnir og mönnun í heilbrigðiskerfinu er mikið mál. Það er ekki sjálfgefið að sérfræðingar séu til reiðu og vilji starfa hjá okkur. Gott starfsumhverfi og nýr spítali eru lykilatriði í því.