146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:20]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Takk fyrir það. Ég hélt alveg örugglega að ég hefði orðað það þannig, hv. þm. Logi Einarsson, að um rúmlega 20% færu í sjúkrahúsþjónustu. Ég biðst afsökunar ef ég orðaði það einhvern veginn öðruvísi. En ég ætla að fá að halda áfram með mál mitt.

Ég stend fyrir utan þessi mál varðandi spítalann, sem ég held annars að sé ótrúlega brýnt og mikilvægt verkefni. En það er annað sem mig langar að fá að ræða aðeins betur, mig langar að fá að heyra nánari útskýringar hjá ráðherra á hugmyndum um nýtt greiðsluþátttökukerfi. Mér heyrist að það sé eitt merkilegasta skrefið sem stigið hefur verið, ég tala nú ekki um gagnvart langveikum sjúklingum, þar sem að mér skilst að hugmyndin sé að sett sé þak þannig að þeir sem eru hvað veikastir borgi hlutfallslega minna. Mér skilst að það sé í rauninni einhver jöfnunarhugsun í því að þeir sem eru það heppnir að þurfa sjaldan að sækja sér einhvers konar sjúkraþjónustu, borgi mögulega hlutfallslega meira, eða hvernig svo sem það er, til þess að mæta sameiginlega því verkefni að þeir sem eru hvað veikastir fái sem mesta aðstoð.

Þær tölur sem ég hef nefnt í þessu samhengi — og ég tala nú ekki um að verið er að tala um að 1,5 milljarðar á ári í þetta verkefni eingöngu þegar það er komið til fullra áhrifa. Í áætluninni stendur að rúmlega 3 milljarðar fari í að lækka greiðsluhlutdeild almennt hjá sjúklingum og þykir mér það mjög metnaðarfullt.

Mig langaði að lokum, þar sem ég veit að ég fæ ráðherra aftur hingað í pontu, að fá að spyrja um það svo ég skilji það betur — ég hef áður staðið í þessari pontu og rætt um aðstöðu psoriasis-sjúklinga, sem eðli máls samkvæmt fara oft í meðferð við því, mögulega dag eftir dag og kannski bara 30 sekúndur í senn, en þurfa þá mögulega að borga í hvert og eitt skipti. Fyrir þá er greiðsluhlutdeildin kannski mikil miðað við aðra. Mig langar að heyra nánari útskýringar á því.