146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrir fyrirspurnina. Greiðsluþátttökukerfið var samþykkt af Alþingi á síðasta ári og tekur gildi núna 1. maí. Það er vissulega stórt skref vegna þess að við höfum séð að ekki hefur ríkt jafnræði meðal sjúklinga. Kostnaðarþátttaka sjúklinga hefur verið mjög misjöfn eftir því hvað hrjáir fólk og hreinlega spyr maður sig stundum hvort það sé tilviljanakennt eftir því hvenær meðferð hefst hversu mikil eða lítil kostnaðarþátttakan er. Nýja greiðsluþátttökukerfið er hannað til þess að jafna það ófæra ástand, þ.e. til að byrja með að jafna kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu þannig að þar sé þak. Síðan eru settir inn viðbótarpeningar til þess sérstaklega að lækka þak gagnvart börnum, fjölskyldum, öldruðum og öryrkjum.

Það verður stór breyting fyrir kerfið. Búið er að reikna út í hörgul hvaða áhrif þetta hefur á hópa. Kerfið er alla vega hannað þannig að það komi ekki illa við ákveðna hópa en við þurfum dálítið að sjá hvernig það mun virka. Flestir sem njóta reglulegrar heilbrigðisþjónustu lenda undir þakinu, eins og mögulega psoriasis-sjúklingar. Ef þeir sækja sér enga aðra heilbrigðisþjónustu geta orðið hækkanir, en kerfið er þó þannig uppsett að ef kostnaðarþátttakan fer yfir (Forseti hringir.) 24 þús. og eitthvað fyrsta mánuðinn er sjúklingurinn strax kominn í afsláttarkerfi það sem eftir er.

Þegar kerfið er komið í gagnið þurfum við líka aðeins að læra af reynslunni af því.