146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:24]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Mig langaði aðeins að minnast á það að á síðasta þingi náðist þverpólitísk sátt þegar öll velferðarnefnd var sammála í nefndaráliti um að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga. Öll nefndin var sammála um að þetta væri fyrsta skrefið í átt að betra greiðsluþátttökukerfi og að það þyrfti líka að bæta fleiri þjónustuþáttum í kerfið sem allra fyrst og sameina greiðsluþátttöku vegna læknisþjónustu og lyfja. Fram kom í nefndaráliti velferðarnefndar að greiðsluþátttökuþakið ætti ekki að vera hærra en 50 þús. kr. á mann og ekki hærra en 33 þús. kr. á börn, öryrkja og aldraða.

Hins vegar lesum við nú fréttir um að greiðsluþátttökuþak verði í einhverjum tilvikum 70 þús. kr. og 46 þús. kr. í einhverjum tilvikum fyrir börn, öryrkja og aldraða. Mér finnst ríkja nokkur óvissa um þessar tölur. Ég verð að segja að þegar ég les fimm ára ríkisfjármálaáætlun finnst mér dálítið undarlegt að pólitísk stefnumótun sé ekki meiri eða að menn séu ekki tilbúnir til að skuldbinda sig við þessa þverpólitísku sátt. Ég les til að mynda hér og mig langar, með leyfi forseta, að vitna beint í áætlunina, en þar stendur:

„Nýtt greiðsluþátttökukerfi tekur gildi og stefnt er að lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga á tímabilinu.“

Svo segir að gert sé ráð fyrir að framlög vegna þessa nýja kerfis verði eftirtalin og tölurnar taldar upp, en það er ekki nefnt neitt sérstaklega hvernig þetta kemur við sjúklingana sjálfa. Ég sakna þess verulega þegar við erum að fara yfir þetta stóra og merka plagg að ekki sé hægt að skuldbinda sig frekar. Kannski hefur það farið fram hjá mér og þess vegna langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Hver er staðan á þessu? Ég væri afskaplega þakklát ef ég gæti fengið skýr svör og krónutölur.