146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Nýtt kostnaðarþátttökukerfi, nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúklinga, tekur gildi núna í maí árið 2017. Það er miðað við fjárframlög sem voru ákvörðuð af Alþingi í fjárlögum fyrir þetta ár þannig að það er nú ekki tekið til þessa kerfis í fjármálaáætluninni öðruvísi en það er fjármagnað áfram. Viðbótarframlög til kerfisins eru um 1,5 milljarðar sem ég minntist á rétt áðan og er ætlað til þess að lækka kostnað barnafjölskyldna, aldraðra og öryrkja, því verður áfram haldið.

Tölurnar sem hv. þingmaður minntist á eru réttar. Það hafa ekki orðið breytingar á áætlunum um tölur eða þök fyrir einstaka sjúklinga. Kerfið er hins vegar afskaplega flókið. Viðmiðunin er sú að kostnaðarþátttaka fullfrískra einstaklinga eins og mín og hv. þingmanns fari ekki yfir 50 þús. kr. á ári og barna, öryrkja og aldraðra ekki yfir 33 þús. kr. á ári eins og kom fram hjá velferðarnefnd, nema í algjörum undantekningartilfellum. Þess ber að gæta að möguleiki er til þess, hafi einstaklingar ekki verið inni í heilbrigðiskerfinu að neinu leyti og hitti mjög óheppilega á afsláttartímabil, að kostnaðarþátttakan verði eitthvað hærri.

Ástæðan fyrir því að framlög sem ætluð eru til þess að lækka kostnaðarþátttöku almennings á tímabilinu sem fjármálaáætlun nær yfir eru ekki útfærð nánar er m.a. út af þessari stóru breytingu sem nýtt greiðsluþátttökukerfi ber (Forseti hringir.) í sér og einnig að við ætlum að setja nýja (Forseti hringir.) peninga til þess að lækka kostnaðarþátttöku, en við þurfum að ákveða nákvæmlega hvar og hvernig við gerum það og hvernig við getum gert það (Forseti hringir.) og það á kannski eftir að koma í ljós í útfærslunni.