146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:29]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör sem voru nokkuð í átt að auknum skýrleika er varðar þessa krónutölu.

Ég verð að segja það að þetta er eitt stærsta mál í íslensku samfélagi þessa dagana. Við heyrum afskaplega sorglegar sögur af einstaklingum sem þurfa að reiða fram mjög háar fjárhæðir og eru kannski í aðstæðum sem eru þeim afskaplega erfiðar og fá stundum mjög sorglegan endi. Þannig að ég vona að þetta sé eins og ráðherrann er að lýsa, að greiðsluþátttakan sé ekki yfir þessum 50 þús. kr.

Ástæða þess að ég held að það ríki svona mikil tortryggni gagnvart kerfinu er sú að ríkisstjórnin er að leggja fram þessa fimm ára ríkisfjármálaáætlun og það er ekki almennileg útfærsla. Það er ekki pólitísk skuldbinding við svona stórt mál með skýrum hætti. Þess vegna er þessi tortryggni. Það vantar ákveðið gagnsæi í ríkisfjármálaáætlunina. Ég er sannfærð um að það hefði mátt komast hjá því ef menn hefðu hreinlega bara skuldbundið sig og þetta væri skýrt. Mér finnst líka ekki til of mikils mælst að gera það hreinlega vegna þess að það er stóra skuldbindingin ykkar á kjörtímabilinu hvernig þið ætlið að skipta fjármununum. Mér finnst það vera nokkuð kaldar kveðjur til sjúklinga að ekki sé betri útfærsla á þessu en raun ber vitni.

Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. ráðherra í framhaldi af þessu: Hver er áætlunin um að koma lyfjum og læknisþjónustu undir eitt greiðsluþátttökuþak? Það væri mjög fróðlegt að heyra það hver áætlunin er. Ég mundi líka vilja fá það kannski líka að heyra viðhorf ráðherrans til upplýsingamiðlunar vegna þess að mér finnst oft eins og mjög margir sjúklingar og jafnvel starfsfólk heilbrigðiskerfisins (Forseti hringir.) ekki átta sig nákvæmlega á því hvernig þessum málum er háttað. Það væri fróðlegt að heyra það frá hæstv. ráðherra hvernig væri hægt að koma til móts við þessar áhyggjur mínar.