146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Alfreðsdóttur fyrir spurningarnar. Því er til að svara að fjármálaáætlun áranna 2018–2022 er auðvitað fjármálaáætlun. Þetta er ekki útfærð fjárlög fyrir hvert ár heldur fyrst og fremst rammar 34 málasviða og síðan eru skilgreindar áherslur á bak við þessa ramma. Þess vegna eru ekki nákvæmar útfærslur umfram áherslur og ákveðna málaflokka.

Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir auknum fjármunum til þess að lækka kostnaðarþátttöku sjúklinga, en það er ekki útfært og eins og ég minntist á er það gert af ráðnum hug, ekki til þess að fela neitt eða hafa það ruglingslegt, heldur til þess að sú útfærsla nýtist sem best.

Nú er mjög stór breyting í farvatninu 1. maí þegar nýtt greiðsluþátttökukerfi verður tekið í notkun. Við getum átt von á því að eitthvað muni koma okkur á óvart varðandi það hvernig kerfið mun reynast. Við reiknum líka með að það geti mögulega haft í för með sér einhverja breytingu á því hvernig einstaklingar nota heilbrigðiskerfið, vonandi til þess að fá betri þjónustu. En það er ábyrgðarhluti þegar við höfum fjárheimildir að við þurfum að sjá hvernig kerfið nýtist gagnvart fjárheimildum áður en við tökum næstu skref.

Varðandi sameiningu greiðsluþátttökukerfis í heilbrigðiskerfinu við lyfjagreiðslukerfið þá er það auðvitað langtímamarkmiðið, en hér eru tvær mjög veigamiklar (Forseti hringir.) breytingar í farvatninu sem við þurfum að fá reynslu af áður en við tökum næsta skref. En ég (Forseti hringir.) tek undir með hv. þingmanni að það eigum við að taka.