146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverðar og góðar spurningar. Til að byrja með vil ég reyndar taka undir með hv. þingmanni, ég vil ekki meina að sérstaklega hafi þurft að snúa upp á höndina á hæstv. fjármálaráðherra þegar kom að því að setja heilbrigðismálin í forgang í fjármálaáætlun. Heilbrigðismálin eru sett í sérstakan forgang, ekki bara í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar heldur líka í stefnum allra ríkisstjórnarflokkanna og reyndar allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi; og trekk í trekk hafa skoðanakannanir, og að ég vil meina niðurstaða kosninganna, bent á að mikill meiri hluti landsmanna er sammála því að heilbrigðismálin eigi að vera í forgangi.

Varðandi geðheilbrigðismálin, sem hv. þingmaður gerði sérstaklega að umtalsefni, þá er uppbygging geðheilbrigðisþjónustu sérstakt áherslumál okkar og mitt. Þar er styrking heilsugæslunnar mjög mikilvægt verkefni, bæði að fjölga sálfræðingum en einnig svokölluðum geðteymum eins og byggð hafa verið upp í austurhluta Reykjavíkur í samvinnu við Reykjavíkurborg. Til stendur að reyna að fjölga þessum geðteymum víðar. Sömuleiðis að stytta biðlista á BUGL, barna- og unglingageðdeild, eins og hv. þingmaður minntist á. Geðheilbrigði er sennilega sá þáttur heilbrigðisþjónustunnar þar sem við eigum hvað mest inni. Það er mjög margt hægt að gera. Við höfum til dæmis lagt áherslu á það í Bjartri framtíð og gerum ráð fyrir því í fjármálaáætlun að setja fjármuni sérstaklega í fjarheilbrigðisþjónustu (Forseti hringir.) sem getur nýst vel. Ég verð víst að koma betur að þessu í seinna svari mínu.