146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:40]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Vissulega fylgir fjarheilbrigðisþjónustu kostnaður, en í stóra samhenginu, þegar við horfum á heilbrigðiskerfið, er sá kostnaður það lítill að hann er væntanlega ekki tiltekinn í krónum og aurum í fjármálaáætlun til fimm ára. Tilraunaverkefni í fjarheilbrigðisþjónustu hafa verið í gangi og verið er að styrkja þau verkefni. Ég held að þetta verði mjög mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustu yfir höfuð, auðvitað sérstaklega í dreifðari byggðum en þegar fram líða stundir bara almennt, eins og hefur sést hjá öðrum þjóðum, t.d. á Nýja-Sjálandi, og hefur haft mjög jákvæð áhrif til þess að auka þjónustu við einstaklinga.

Svo að við förum aftur í geðheilbrigðismálin þá er heilsugæslan mjög mikilvægur fyrsti viðkomustaður í heilbrigðisþjónustu og ekki síst þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustu og því að meðhöndla heilsubrest og líka að stuðla að heilbrigði hjá fólki. Það skiptir líka miklu máli í þessari fyrsta stigs þjónustu að við fækkum gráum svæðum á milli heilbrigðisþjónustu sem veitt er af ríkinu og félagsþjónustu sem veitt er af sveitarfélögunum, en oft njóta sömu einstaklingar þjónustu á báðum stöðum. Það er mikilvægt að þessi kerfi vinni vel saman.

Varðandi það sem hv. þingmaður minntist á í fyrri spurningu, um þjóðhagsleg áhrif af því að standa vel að geðheilbrigðismálum, þá held ég að það skipti mjög miklu máli. Við sjáum mikla fjölgun öryrkja og vitum að stór hluti þeirrar fjölgunar er vegna geðheilbrigðisvandamála. Það er auðvitað þjóðhagslegt vandamál en ekki síður er það vandamál fyrir þá einstaklinga sem eiga (Forseti hringir.) við veikindi að glíma. Það hlýtur að vera grundvöllur heilbrigðiskerfisins eins og kerfisins alls að einstaklingum líði vel og að þeir eigi ánægjulegt og gjöfult líf.