146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er ánægjulegt að heyra hversu margir hv. þingmenn eru að hugsa um geðheilbrigðismálin, það er ánægjuleg þróun. Geðheilbrigðismálin hafa gjarnan verið feimnismál í íslensku samfélagi. Síðustu árin hefur það gerbreyst. Það er mjög ánægjulegt, ekki bara vegna þess að það eykur þrýsting á okkur sem ráðum einhverju um það að bæta í málaflokkinn, gera betur í þjónustunni, heldur minnkar það sömuleiðis félagslega einangrun þeirra sem eiga við geðheilbrigðisvandamál að stríða og ætti að auðvelda þeim að leita sér þjónustu og vonandi að hafa upplýsingar til að leita sér réttrar þjónustu.

Ég tek undir með hv. þingmanni að leggja áherslu á fyrsta stigs þjónustu í heilsugæslunni og uppbyggingu heilsugæslunnar og um aðgengi almennt í heilbrigðiskerfinu en ekki síst að geðheilbrigðisþjónustu, og síðan að aukinni fræðslu tengdri lífsstíl og lífsstílstengdum sjúkdómum. Margir myndu vilja meina að lífsstíll og nútímasamfélag geti að einhverju leyti ýtt undir geðheilbrigðisvandamál. Mér finnst því mjög mikilvægt að við bjóðum upp á aukna þjónustu, aukið aðgengi og að það sé m.a. boðið upp á heildræna atferlismeðferð. Við erum með nýlegar tölur sem sýna að við notum meira en 100% meira af geðlyfjum en nágrannaþjóðir sem við miðum okkur við. Þó svo að geðlyf séu mikilvæg og gagnleg þegar þau eiga við (Forseti hringir.) eru þetta óeðlilegar tölur og geta bent til þess að það sé skortur á öðrum og betri úrræðum.