146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:57]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör. Eftir stendur þetta: Ég tel að enn vanti fé til að reka þessi hjúkrunarrými þótt þau séu að detta inn allt þetta tímabil. Það kostar kannski tæplega 3 milljarða kr. á ári að reka 292 rými, ef ég reikna rétt. En það er nú svona.

Ég vil auðvitað fagna, og við gerum það öll í hjarta okkar, af hjartans einlægni nýju háskólasjúkrahúsi og að það sé gulltryggt að kalla má að það verði. En það vantar endurbætur víðar. Það vantar endurbætur á sjúkrahúsin á Suðurlandi, á Selfossi, á Vesturlandi, í Stykkishólmi. Frá fyrsta degi verður aukin hagkvæmni í starfseminni, bæði faglega og rekstrarlega, ef okkur tekst að lagfæra þetta. Það sama er á Akranesi.

Heilsugæslan hefur barist í bökkum og er vanfjármögnuð enn. Ég vona að þau fyrirheit gangi eftir að hagur þeirra verði réttur en ekki er auðvelt að sjá það. Nýja greiðsluþátttökukerfið tekur gildi 1. maí. Þar eru stórir íþyngjandi þættir enn úti, þ.e. tannlæknaþjónustan. Þegar síðasti samningur var gerður við sérfræðinga 2008 átti það að dekka upp undir 80% af kostnaði, nú dekkar sú niðurgreiðsla TR líklega um 23%, eftir því sem skjólstæðingar segja mér. Þetta er vandamál.

Við buðum hærra og betur í greiðsluþátttökunni, við buðum og lögðum til að við færum niður í 35 þús. kr. sem nú er komið upp í allt að því helmingi hærri upphæð, upp í 70 þús. kr. (Forseti hringir.) Telur hæstv. heilbrigðisráðherra ekki mögulegt að fara lægra?