146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni sem fór víða. Ég fullvissa hv. þingmann enn um að áætlanir um hjúkrunarrýmin eru fjármögnuð eins og þau eru. Áætlunin gerir ráð fyrir því. (GBr: Eru þau fjármögnuð eins og þau eru?) Þau eru fjármögnuð í fjármálaáætlun eins og þau eru áætluð. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemdina.

Það er rétt sem hv. þm. Guðjón S. Brjánsson bendir á að það er mikilvægt að byggja heilsugæsluna upp. Það er lykilmarkmið í fjármálaáætluninni.

Varðandi greiðsluþátttökukerfið verð ég að ítreka það sem ég hef sagt í svörum við aðra hv. þingmenn í kvöld, það er gert ráð fyrir að kerfið taki við núna 1. maí. Það er fjármagnað í fjárlögum fyrir 2017 og ekki gert ráð fyrir breytingum þar á. Þær upphæðir, þau þök sem miðað er við fyrir einstaklinga eru þau sömu og voru kynnt velferðarnefnd fyrir áramót. Það er ekki gert ráð fyrir því nema í algerum undantekningartilfellum að þak fullfrískra einstaklinga sé hærra en 50 þús. kr. yfir árið og hærra en 33 þús. kr. fyrir börn, aldraða eða öryrkja. Einu undantekningar, mögulega, því að þetta er mjög flókin útfærsla með áunnum afsláttum, eru fyrir fólk sem kemur algerlega nýtt og hrátt inn í kerfið í mikla þjónustu.

Ég tek fram að útfærslan á kerfinu var samþykkt þverpólitískt á síðasta kjörtímabili. Við erum í þessari fjármálaáætlun að miða við að taka það í gildi núna 2017 og halda því til streitu, en við gerum líka fyllilega ráð fyrir því að þurfa að fá reynsluna af því áður en við höldum áfram að lækka kostnaðarþátttöku einstaklinga. Þá þurfum við að horfa til m.a. tannlæknaþjónustu, eins og hv. þingmaður benti á. (Forseti hringir.) Ég segi sömuleiðis sálfræðingaþjónustu o.fl. En ég teldi óábyrgt að útfæra það núna áður en við fáum betri reynslu af kerfunum eins og þau eru að taka við.