146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:51]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hér talaði hæstv. heilbrigðisráðherra um að opinber fjármál væri fastur heimur. Nei, það er algjör misskilningur. Fyrst varð heimurinn til, svo komu mennirnir og mannlífið. Það eru fjármálin sem aðlaga sig að því. Það er mannlífið sem ákveður hvernig fjármálin eiga að vera. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir talaði um að þessi umræða væri nett yfirborðskennd, hana skorti dýpt. Hvað er dýpt? Er dýpt það að benda á einstaka liði í fjármálaáætluninni og ræða hvort það eru 3 kr. eða 5 kr. í málaflokkinn? Nei, hér hefur nefnilega verið ágætisumræða í dag. Fjölmargir þingmenn hafa komist að og talað almennt um pólitík á breiða sviðinu. Það er það sem við eigum að vera að gera, enda sagði hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson í ræðu sinni að það ættu sér stað tímamót í þingsögunni á Alþingi, að almenn pólitísk stefnumótun myndi nú hefja innreið sína með nýju vinnulagi. Það væri betur ef svo væri. Ég held að þessi tímamót séu eitthvað sem endar ekki í kvöld. Ég held einmitt að þessi stóra umræða sem Njáll Trausti hv. þingmaður var væntanlega að tala um verði að fara að eiga sér stað og hún er um hvers konar samfélag við ætlum að byggja.

Við stöndum nefnilega núna á hnífsegg. Við getum fallið hvorum megin hryggjar sem er. Við getum orðið auðræði að bráð eða það getur áfram verið virkt lýðræði þar sem fólkið ræður.

Því miður, frú forseti, finnst mér eins og stefna ríkisstjórnarinnar muni ýta okkur áfram í átt að samfélagi þar sem peningar munu kannski enn meira en fyrr taka völdin. Og af hverjum? Af almenningi og ekki síst af þeim sem minna mega sín.

Það hefur ýmislegt merkilegt komið fram í dag. Hæstv. menntamálaráðherra Kristján Þór Júlíusson talaði um að þessi fjármálaáætlun væri unnin undir mikilli tímapressu, það væri ýmislegt hægt að afsaka vegna þess að menn hafi ekki haft mikinn tíma til að velta hlutunum fyrir sér. Er það boðlegt? Er það boðlegt átta árum eftir að íslenskur almenningur upplifði hrun á heilu þjóðfélagi þar sem meira að segja meðaltekjufólk barðist í bökkum og sér ekki enn fram úr sínum málum?

Hæstv. félagsmálaráðherra Þorsteinn Víglundsson sagði líka að í hruninu hefðu þeir veikustu tapað mest. Ef hér yrði ekki stöðug hagstjórn þá myndu þeir veikustu tapa aftur. Samt ætla menn að fá samþykkta fjármálaáætlun og fjármálastefnu með útgjaldareglu sem krefst þess að efnahagslífið bólgni stöðugt út, endalaust, til þess að hægt verði að veita svigrúm til að ráðast í nauðsynlega uppbyggingu á heilbrigðiskerfi, menntakerfi og innviðum.

Við vitum að efnahagslífið hagar sér ekki með þessum hætti. Hér eru uppsveiflur og svo förum við niður í svartari dali þar á milli. Þessi regla mun gera það að verkum að við slíkar aðstæður herðir að, þá þrengist í snörunni, þá hafa menn ekki svigrúm. Hvar munu menn þá bera niður? Hvar verður þá hoggið? Hvaða vopn hafa menn þá í búrinu sínu? Jú, það er niðurskurðarhnífurinn sem mun bitna á heilbrigðismálum, menntamálum, velferðarkerfinu, húsnæðismálum og þeim sem verst hafa það. Þetta er hárrétt hjá hæstv. félagsmálaráðherra Þorsteini Víglundssyni, enda sagði hann það líka í andsvörum að byggt væri á spá einhverra sérfræðinga, en viðurkenndi að ef spáin myndi bregðast yrðu menn að endurskoða regluna.

Þá spyr ég: Af hverju tefla menn svona djarft? Af hverju eru menn þá með þessa reglu? Af hverju gangast menn ekki inn á það að hér er ekki verið að reka vídeóleigu, vídeósjoppu, það er verið að reka samfélag. Samfélag er allt annars konar fyrirbrigði en venjulegur verslunarrekstur.

Menn fæðast inn í samfélagið með hlutdeild í sameignunum, með hlutdeild í þeim sameignum þar sem hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra ætluðu að virkja markaðslögmálið til þess að ná þeim tekjum sem við þyrftum til að byggja upp innviðina en hafa nú gefið eftir. Ekki ætla ég að segja af hverju. Ekki ætla ég að halda því fram að það hafi verið út af ráðherrastólum eða ríkisstjórnarsæti eða til þess að freista þess að halda flokkunum sínum á lífi, en a.m.k. hafa þeir gefið þetta allt eftir.

Fyrir kosningar töluðu nefnilega allir flokkar á Alþingi um það að hér væri lífsnauðsynlegt að bregðast við þeim vanda sem steðjaði að heilbrigðiskerfi, menntakerfi, grotnandi vegum. En núna á að sigla varkára leið í mesta hagvaxtarskeiði sögunnar á Íslandi.

Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson dirfðist að segja að í þessu stóra og mikla hagvaxtarskeiði yrðum við að fara varlega, þá gætum við ekki sinnt menntakerfinu, við gætum ekki byggt upp til framtíðar, við hefðum ekki efni á að gefa í í heilbrigðiskerfinu og tryggja öllum aðgang að því. Og vissulega væri það mikilvægt eins og hann segði og hann hefði viljað bæta í samgöngur og innviði, það væri bara ekki hægt, við yrðum að fara varlega. Hvers konar boðskapur er þetta? Hvenær á að vera hægt að byggja upp samfélag okkar ef það er ekki núna þegar hér er nóg af peningum. Þeir eru kannski ekki í ríkiskassanum í augnablikinu, en þeir bíða hæstv. ráðherra handan við hornið. Hér eru sterkefnaðir aðilar sem nýta auðlindirnar okkar fyrir skammarlega lágar upphæðir, eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði í kosningabaráttunni norður á Akureyri, þá held ég að veiðileyfagjöldin séu bara tvöföld þar sem lax- og silungsveiðimenn borga fyrir réttindi í ánum. Ekki getur það talist há upphæð.

Hér er fólk sem veltir hundruðum milljóna og milljarða. Ekki má heyra á það minnst að tekinn sé fjármagnstekjuskattur af því fólki. Ekki má leggja á auðlegðarskatt og ekki má leggja á hátekjuskatt.

Ég held það hafi verið Bjartur í Sumarhúsum sem sagði: Þú getur haft mig fyrir það að frelsið er meira vert en lofthæðin í bænum. Þannig hefur Sjálfstæðisflokkurinn getað hrætt fólk í áratugi, að frelsið sé mikilvægara, sjálfstæði, jafnvel þótt það leiði til bölvunar fyrir alla sem búa heima í bænum.

Besta fjárfesting íslensks samfélags er réttlátt skattkerfi og samneysla. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)