146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

orð heilbrigðisráðherra um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[15:10]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil taka í sama streng. Það er háalvarlegt mál að hæstv. heilbrigðisráðherra er þráspurður hér 23. mars og það má með sanni segja að það var ekki fyrr en í fjórðu tilraun að tókst að fá upp úr ráðherranum eitthvað sem nálgaðist svar í því að ekki stæði til að koma upp einkasjúkrahúsi á Íslandi á vegum Klíníkurinnar. Svo er að gerast akkúrat þessa dagana að landlæknir sér sig knúinn til að senda frá sér yfirlýsingu vegna málatilbúnaðar ráðherrans í þessu máli.

Mér finnst háalvarlegt, virðulegur forseti, að hæstv. heilbrigðisráðherra Óttarr Proppé hafi hreinlega lagt sig fram um að afvegaleiða þessa umræðu, bæði innan þings og utan. Ég sé ekki betur en að ástandið sé þannig núna að hann sé á harðahlaupum undan fjölmiðlum.