146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

orð heilbrigðisráðherra um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[15:13]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra er yfirvegaður maður en fremur seinn til svars. Svörin hans eru loðin. Kannski talar hann tungum tveim. Hann er ekki í auðveldri stöðu. Sá sem hér stendur var einn þeirra sem reyndu að knýja fram skýr svör 23. mars sl., en það fór nú sem fór. Umræðan snerist þá um eina tegund aðgerða, liðskiptaaðgerðir, en ljóst er að í viðskipta- og verslunarhverfinu í Ármúla er lífleg sjúkrahússtarfsemi. Þar eru gerðar ýmsar aðgerðir enn í dag á fullum krafti, eins og enginn sé morgundagurinn, og reikningurinn sendur Sjúkratryggingum Íslands sem er opinn krani, að því er virðist, meðan almennar, opinberar heilbrigðisstofnanir eru skornar niður við trog.