146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

orð heilbrigðisráðherra um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[15:20]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. „Hugrekki. Það krefst hugrekkis að hlusta á hjarta sitt, fylgja sannfæringu sinni, boða sýn, treysta fólki, hlusta á rök og upplýsingar, standa í fæturna og axla ábyrgð. […]

Ábyrgð. Allt það sem ofan greinir byrjar hjá okkur sjálfum, með ábyrgð á okkur sjálfum og því hvernig við hugsum, tölum og hlustum. Við vegum og metum kosti og galla allra mála af ábyrgð. Við óttumst ekki erfiðar ákvarðanir í þágu almannahags og bjartrar framtíðar.“

Þetta er úr yfirlýsingu frá Bjartri framtíð. Hún fjallar líka um traust og ýmislegt annað. Í ljósi þess langar mig að spyrja hvernig í ósköpunum standi á því að beiðni um að fá forstjóra Landspítalans til að koma fyrir velferðarnefnd til að fara yfir fjármálaáætlun var hafnað í morgun.