146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

orð heilbrigðisráðherra um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[15:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er svolítið sérstök umræða sem hv. þingmenn hafa hafið upp hér um meinta fjarveru hæstv. heilbrigðisráðherra hér í dag. Nú vill svo til að heilbrigðisráðherra er með mál á dagskrá á morgun og verður hér til svara á miðvikudaginn. Þess vegna hefði kannski nægt að einn eða tveir þingmenn kæmu og gerðu athugasemdir við að hann væri ekki hér í dag, en óþarfi að þeir séu tíu. Það vill hins vegar svo til (Gripið fram í.) að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur auðvitað ýmsum skyldum að gegna utan þessa salar. Til dæmis í dag er ársfundur Landspítalans sem er sennilega stærsta stofnunin sem undir hann heyrir og ég hygg að hæstv. ráðherra sé þar núna. Það ætti því að vera óþarfi fyrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að koma svona tíu, tólf í viðbót og kvarta yfir fjarveru hans á þessari stundu.