146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

orð heilbrigðisráðherra um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[15:32]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil upplýsa hv. þm. Eygló Harðardóttur um að það eru ekki nýmæli að menn þurfi að fara að lögum. Það er auðvitað hægt að ræða málin, það er enginn að banna mönnum að ræða málin, en menn geta ekki ætlast til þess almennt að ráðherrann hafi bara einhverja skoðun og fari aðra leið en lögin segja til um. (EyH: Ertu þá að segja að aðrir ráðherrar hafi ekki farið að lögum?) Nei, ég er ekki að segja það, ég er bara að segja að — (Gripið fram í: Jú.) Nei, nei, ég er bara að segja að menn verða að … (Gripið fram í.) Ég hef að vísu oft talið ráðherra ekki fara að lögum, en það breytir því ekki að niðurstaða ráðherra er endanleg á stjórnsýslustiginu. Lögfræðileg niðurstaða hans um þetta gildir þangað til henni verður hnekkt, þá bara með dómi. Þannig er það. Ég get verið ósammála ráðherranum en ráðherrann er embættismaður (Forseti hringir.) og hann hefur þá skyldu að fara að lögum. Um það snýst þetta, ekki hvaða geðþóttaákvörðun hann kann að taka og hvaða sjónarmið hafa.