146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

orð heilbrigðisráðherra um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[15:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Mér finnst virðingarvert af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að koma hér upp og verja hæstv. heilbrigðisráðherra. En ég sakna þess að þingflokksformaður Bjartrar framtíðar geri það. Hins vegar vil ég í þessari umræðu allri saman benda á mál sem núna er í vinnslu hjá hv. velferðarnefnd og hefur verið síðan snemma á þessu ári, frumvarp frá Samfylkingunni sem gengur út á breytingar á þeim greinum sem við erum að slást um hér í dag. Það gengur út á að ráðherra megi ekki gera samninga við einkaaðila í heilbrigðisþjónustu nema hann hafa fengið leyfi hjá Alþingi og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Einnig að ekki megi greiða arðgreiðslur úr slíku fyrirtæki. Við getum drifið það mál gegnum þingið. Þá þurfum við ekki að rífast um túlkun á þessum greinum því að þá er algerlega ljóst hver (Forseti hringir.) það er sem setur stefnuna í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Það verður Alþingi Íslendinga.