146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

orð heilbrigðisráðherra um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[15:39]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Það verður að koma mjög skýrt fram að það er áfram einkavæðing í heilbrigðiskerfinu. Það hefur verið einkavæðing í heilbrigðiskerfinu og leiðin sem hefur verið farin er í gegnum fjárlög. Það er verið að færa peninga frá spítölunum og það er gert áfram í dag, frá spítölunum þar sem best er hægt að tryggja öryggi, og færa þá til annarra aðila úti í bæ í gegnum Sjúkratryggingar Íslands. Þessu varaði landlæknir við fyrir kosningar og við ræddum þetta í kosningabaráttunni. Þessi einkavæðing er án gæðaeftirlits. McKinsey-skýrslan sem kom út um Landspítalann og heilbrigðiskerfið bendir á þetta. Þessi ríkisstjórn er áfram að fara nákvæmlega sömu brautina og eftir að hafa rætt við heilbrigðisstarfsmenn í landinu er verið að gefa í. Áfram á að vera einkavæðing (Forseti hringir.) án gæðaeftirlits á Íslandi í boði stjórnvalda núna.