146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

stefna í heilbrigðismálum.

[15:41]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og rætt hefur verið hér, undir liðnum fundarstjórn forseta, brennur stefna í heilbrigðismálum á Íslandi á þjóðinni. Svo bar við að landlæknir fann sig knúinn til að senda frá sér yfirlýsingu vegna aðgerða, eða kannski öllu heldur aðgerðaleysis, síns yfirmanns, en í yfirlýsingunni fer landlæknir yfir umræðuna um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu á Íslandi sem hann segir óljósa og bendir á að það sé hlutverk embættisins að staðfesta hvort lágmarkskröfur séu uppfylltar en ráðherrans að veita starfsleyfi til heilbrigðisþjónustu ef og þegar slík staðfesting liggur fyrir. Ráðherrann segir hins vegar að það sé landlæknis að veita starfsleyfið og gefur í skyn að það hafi hann gert í janúar með því að staðfesta að faglegar kröfur væru uppfylltar í Ármúlanum.

Ef þessi afstaða ráðherrans stenst lög, virðulegi forseti, þá er tvöfalt heilbrigðiskerfi komið upp á Íslandi: Eitt fyrir þá sem geta borgað beint úr eigin vasa og annað kerfi fyrir þá sem njóta þjónustu sem borguð er eða niðurgreidd af ríkissjóði. Í mínum huga er það algjörlega ljóst að heilbrigðisstofnun þarf leyfi heilbrigðisráðherra, það hlýtur að vera þannig, þannig hefur túlkun ráðherra verið hingað til, það er ekki hægt að skjóta sér fram hjá því. Ég spyr því: Er reksturinn lögmætur að mati hæstv. fjármálaráðherra þegar landlæknir segir að það skorti leyfi? Er hæstv. ráðherra ánægður með þessa þróun? Var hann jafnvel aðili að því að búa þetta kerfi til á sínum tíma sem stjórnarformaður Sjúkratrygginga þegar núverandi utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, var heilbrigðisráðherra? Hver er afstaða ráðherrans til tvöfalds heilbrigðiskerfis? Hugnast honum það? Telur hann það samræmast ábyrgri ráðstöfun opinbers fjár að ótakmarkað fjármagn geti runnið úr ríkissjóði í einkageirann þar sem um er að ræða jafnvel fólk og aðila og fyrirtæki sem hagnast á heilsubresti?