146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

stytting atvinnuleysisbótatímabilsins.

[15:47]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Árið 2006 var atvinnuleysisbótatímabilið stytt úr fimm árum í þrjú, en þá hafði löggjafinn séð til þess að atvinnulausum væri gefinn aðlögunartími þannig að ekki kæmi til afturvirkrar skerðingar. Sú var ekki raunin þegar tímabilið var stytt úr þremur í tvö og hálft árið 2014. VR stefndi í kjölfarið íslenska ríkinu og vann málið fyrir rétt rúmlega ári, en þá var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli VR gegn íslenska ríkinu vegna breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar sem komu til framkvæmda 1. janúar 2015. Niðurstaðan er sú að dómurinn fellst á aðalkröfu VR um að viðurkennt verði að óheimilt hafi verið að skerða réttindi til greiðslu atvinnuleysisbóta með því að stytta bótatímabilið um sex mánuði samkvæmt lögum nr. 125/2014.

Í dómnum segir að sá sem verði atvinnulaus og fái greiddar atvinnuleysisbætur verði að byggja framfærslu sína á þessum greiðslum og á meðan þeirra nýtur við á hann almennt að geta reitt sig á að njóta þeirra í samræmi við þær reglur sem um þær gilda þegar réttindi hans urðu virk. Hann eigi réttmætar væntingar um að geta notið þessara greiðslna út bótatímabilið.

Þá tekur dómurinn einnig undir rök VR að ríkið hafi ekki getað lagt fram nein þau gögn sem fært geti viðhlítandi rök fyrir því að nauðsynlegt hafi verið að lækka útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs. Segir dómurinn að skerðingin hafi þurft að helgast af ríkri nauðsyn og málefnalegum forsendum en ekki verði séð að hún hafi helgast af öðru en því að bæta afkomu ríkissjóðs.

Því langar mig að spyrja: Hvaða rök hefur hæstv. ráðherra fyrir því að rík nauðsyn sé fyrir yfirstandandi skerðingum á réttindum atvinnulausra, en hæstv. ráðherra hefur boðað skerðingu á atvinnuleysisbótatímabilinu niður í tvö ár úr tveimur og hálfu?