146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

stytting atvinnuleysisbótatímabilsins.

[15:50]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Hér er verið að boða ekki aðeins styttingu bótatímabils heldur umtalsverða breytingu á því hvernig staðið verður að rekstri atvinnuleysistrygginga hér til framtíðar þar sem byggt verði á jafnaðaratvinnutryggingagjaldi og sveigjanlegu bótatímabili sem taki mið af atvinnuástandi hverju sinni. Við erum í dag með lengsta atvinnuleysisbótatímabil á öllum Norðurlöndunum og verðum með það áfram þó svo að við styttum það niður í 24 mánuði.

Í atvinnuástandi eins og nú er þar sem atvinnuleysi mælist u.þ.b. 3% er ekki rík ástæða til þess að vera með mjög langt bótatímabil. Við munum að sjálfsögðu taka tillit til dóma þegar kemur að því hvernig framkvæmd á styttingu bótatímabils verður, en það er auðvitað líka áhyggjuefni þegar næga atvinnu er að hafa að við sjáum áfram langtímaatvinnuleysi.

Um fimmtungur þeirra sem eru á atvinnuleysisbótum í dag, þrátt fyrir að næga vinnu sé að hafa, hefur verið atvinnulaus lengur en tólf mánuði. Við þekkjum alvarlegar afleiðingar þess og er í raun og veru leið inn á örorku í gegnum atvinnuleysisbætur. Það er mjög mikilvægt að geta gripið fyrr inn í þetta með virkniúrræðum en að fólk sitji ekki atvinnulaust og tæmi réttindi sín um langan tíma í góðu ástandi. — Ég held að ég verði að fá mér vatn. Afsakið þetta. — Þetta er meginröksemdafærslan fyrir þessum breytingum. Við teljum mjög mikilvægt að bótatímabil haldist í takt við atvinnuástand á hverjum tíma og hægt sé að lengja það þegar atvinnuástand versnar. Það er engin ástæða til þess að halda því mjög löngu.