146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

fjármálaráð og fjármálaáætlun.

[15:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Við erum búin að afgreiða fjármálastefnuna til næstu fimm ára og þar voru gerðar athugasemdir af hálfu fjármálaráðs sem voru hunsaðar. Þær koma sumar aftur fram í umsögn ráðsins um fjármálaáætlunina og þá er spurning hvort það eigi líka að hunsa það því að það er hægt að gera breytingar á milli umræðna. Maður vonast sannarlega til að það verði gert vegna þess að þegar lögin voru sett um fjármálaráðið var þess vænst að það myndi stuðla að auknum aga í fjármálum hins opinbera í niðursveiflu og á góðæristímum. En til þess að svo megi verða verður að fara eftir ábendingum ráðsins. Fjármálaráðið gagnrýnir m.a. að það eigi að lækka almenna virðisaukaskattsþrepið á áætlunartímanum.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort sú gagnrýni sé ekki réttmæt og hvort það sé ekki rétt að sagan hafi sýnt að lækkun skatta á þenslutímum hafi (Forseti hringir.) slæmar afleiðingar á hag almennings. Ég vitna hér í söguna ef hin faglegu rök fjármálaráðs duga ekki fyrir hæstv. ráðherra.