146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

fjármálaráð og fjármálaáætlun.

[16:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Aftur verð ég að segja að ég er sammála því að auðvitað þarf að hlusta á rök fagmanna sem sitja í fjármálaráði. Þar situr úrvalsfólk sem hefur mikla þekkingu á fjármálum ríkisins og hagfræði og efnahagsmálum almennt. Auðvitað eigum við líka að draga lærdóm af sögunni.

Nú er fjármálaáætlun í meðförum þingsins og ég veit að þingmenn munu ræða hana í þaula. Þar munu menn að sjálfsögðu benda á og taka undir ýmislegt af því sem fjármálaráð hefur sagt, enda verð ég fyrstur manna til að játa að við erum ekki lengra komin í þessu ferli en svo að það væri mjög æskilegt að við hefðum fleiri tæki og tól til að gera þessa áætlun betri.