146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

beiðni um sérstaka umræðu.

[16:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Næst á dagskrá eru tvær sérstakar umræður. Nánast frá því að þingið kom saman er ég búin að vera með beiðni um sérstaka umræðu gagnvart forsætisráðherra um ofbeldi í samfélaginu. Forsætisráðherra okkar hefur gerst einn af tíu þjóðarleiðtogum í forsvari fyrir jafnréttisátaki UN Women. Við höfum tekið þátt í því. Hann hefur hvatt aðra til að taka þátt í að dansa fyrir hugrakkar konur um allan heim sem berjast gegn mótlæti, óréttlæti og misbeitingu í daglegu lífi. Hann virðist hins vegar ekki hafa tíma til að koma í þingið og ræða við okkur um það hvað ríkisstjórnin hyggist gera til að vinna gegn ofbeldi í íslensku samfélagi. Sem dæmi um hversu brýnt þetta er voru sláandi fréttir núna um helgina um að aldrei hafa fleiri komið á neyðarmóttöku Landspítalans vegna nauðgana en í fyrra. Brotin eru sífellt grófari, brotaþolar lýsa mikilli niðurlægingu af hendi gerenda í orðum og athöfnum en fjöldi kæra eykst ekki að sama skapi. (Forseti hringir.) Þetta er málaflokkur sem heyrir undir það marga ráðherra að ég taldi rétt að beina þessari beiðni að forsætisráðherra sem verkstjóra, sem oddvita ríkisstjórnarinnar, en hann virðist einfaldlega vera týndur. Varaformaður Framsóknarflokksins auglýsti eftir honum um helgina en hann virðist ekki hafa neinn áhuga á að koma og ræða við okkur, ekki hvað síst um þann viðkvæma og erfiða málaflokk sem snýr að kynferðisofbeldi í íslensku samfélagi.