146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

kennaraskortur í samfélaginu.

[16:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Þær voru sjö, eins og hún gat um áðan. Til viðbótar komu einar fjórar fram í ágætri ræðu hv. þingmanns. Allar spurningarnar sýna hversu mikilvægt það er að við tökumst á við það verkefni að manna skólakerfið með hæfu og góðu fólki áfram eins og verið hefur um langa hríð.

Ég ætla að hlaupa yfir svör og get lofað hv. fyrirspyrjanda að ég kemst ekki yfir að svara öllum spurningunum í fyrra svari mínu og reyni að koma því sem eftir stendur að í síðara svari mínu.

Við þekkjum að gerðar voru breytingar á lögum um menntakerfið hér í upphafi þessarar aldar og á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda voru gerðar breytingar 2008. Þá var nám í menntun grunn- og leik- og framhaldsskóla lengt þannig að menntun á meistarastigi var í flestum tilvikum gerð að forsendu kennsluréttinda. Flestir starsfmenntakennarar á framhaldsskólastigi eru þó undanskildir þessari kröfu. Meginrökin fyrir lagabreytingunni 2008 voru að sníða starfsmenntun íslenskra kennara að umbótum sem undanfarin ár hefðu orðið á kennaramenntun víðs vegar um heim. Þessar alþjóðlegu aðgerðir miðuðu almennt að því að efla fagmennsku kennara og stuðla að auknu sjálfstæði þeirra og ábyrgðarskyldu.

Hins vegar fylgdu þessum breytingum nokkrir vaxtarverkir. Sagan endurtók sig að nokkru leyti. Kennaranemum fjölgaði tímabundið í aðdraganda þessara lagasetninga og eftir samþykkt laganna 2008 dró úr aðsókn í námið. Við erum enn þann dag í dag í þeirri niðursveiflu.

Undanfarin misseri hefur ráðuneytið í samstarfi við hagsmunaaðila rýnt í aðgerðir til að fjölga kennaranemum, efla starfsþróun kennara og skólastjórnenda og sporna við brottfalli úr kennarastétt. Í áætlunum ráðuneytisins í tengslum við fjárlagagerð til næstu fimm ára eins og hv. fyrirspyrjandi kom að er m.a. lögð sérstök áhersla á menntun og nýliðun í kennarastéttinni. Við erum að leggja drög að og vinna aðgerðaáætlun í samráði við hagsmunaaðila um aukna nýliðun kennara til framtíðar. Einnig er mikilvægt að draga úr brottfalli kennara úr starfi. Ég geri ráð fyrir að lögin um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda og reglugerðir um inntak kennaramenntunar verði endurskoðuð í þessu samhengi, m.a. til að skýra kennsluréttindi sem gilda á fleiri en einu skólastigi.

Ráðuneytið hefur einnig undanfarin ár unnið að stefnumótun um starfsþróun kennara með stofnun fagráðs um starfsþróun kennara og skólastjórnenda árið 2012. Því starfi lauk með skýrslu í mars árið 2016. Í kjölfar hennar var ákveðið að stofna nýtt samstarfsráð. Því er ætlað m.a. að koma niðurstöðum skýrslunnar í framkvæmd í sem víðtækustu samstarfi.

Samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda vinnur nú sérstaklega að áætlun um nýliðun í kennarastarfi og hvernig sporna megi við brotthvarfi úr kennarastétt. Ráðið er að taka saman upplýsingar um stöðuna og aðgerðir sem unnið er að hjá háskólunum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélögum og mun leggja fram tillögur í þessum efnum til mín þegar ráðið verður komið á þann stað í sinni vinnu.

Í þessu sambandi má nefna að í ráðuneytinu er starfshópur að störfum um stefnumótun í kennaramenntun. Ég hef sömuleiðis tekið þessi mál upp í viðræðum við m.a. Háskóla Íslands og forsvarsmenn menntavísindasviðs og rektor. Ég átti þess kost í síðustu viku að taka þessi mál til umræðu við þá þar sem við ræddum mögulegar leiðir til að bregðast við yfirvofandi kennaraskorti, sem vissulega er ekki nýr af nálinni, og mögulegar aðgerðir til að sporna við honum.

Hér var spurt, og það fellur ágætlega inn í þetta samhengi, hvort eðlilegt sé að breyta kennaranáminu á einhvern veg. Rétt er að taka fram að lögin um menntun og ráðningu kennara frá árinu 2008 eru rammalög og gefa ekki skýr fyrirmæli um inntak eða fyrirkomulag kennaramenntunar. Reglugerð um inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólanna frá árinu 2011 gefur háskólum hins vegar mikið svigrúm til að skipuleggja starfsmenntun kennara. Ljóst er að skipa má kennaramenntun með fjölbreyttari hætti en nú er gert hérlendis. Sennilega er nauðsynlegt að svo verði gert til að mæta vanda sem við blasir varðandi mönnum skólanna á komandi árum.

Í þeim efnum þarf að huga að því að gera kennaranámið að raunhæfum og spennandi kosti fyrir sem fjölbreyttastan hóp kennaraefna með ólíkan bakgrunn.

Ég ætla að freista þess í mínu síðara andsvari að svara þeim spurningum sem út af standa í upphaflegum spurningalista hv. þingmanns.