146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

kennaraskortur í samfélaginu.

[16:28]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að vekja máls á þessu alvarlega vandamáli sem við munum þurfa að glíma við innan fárra ára ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða. Hv. þingmaður minntist áðan á skýrslu Ríkisendurskoðunar um kostnað og skilvirkni kennaramenntunar í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Þar kemur ýmislegt fleira fram en þingmaðurinn nefndi áðan, t.d. sú staðreynd að í desember 2015 störfuðu 1.758 menntaðir leikskólakennarar í leikskólum landsins en 2.992 leyfisbréf hafa verið gefin út til þeirra starfa frá árinu 2009. Það þýðir að stór hluti þeirra sem þó sækja sér þessi réttindi leitar annað.

Svipað hlutfall mun vera meðal þeirra sem hafa réttindi til kennslu í grunnskólum. Þetta er grafalvarlegt mál, enda kemur fram í þessari ágætu skýrslu að kostnaður ríkissjóðs, þ.e. skattgreiðenda, við hvern útskrifaðan kennara eftir fimm ára nám er að lágmarki 4,3 milljónir. Það er mikil synd ef slík fjárfesting skilar sér ekki nema að litlu leyti til samfélagsins.

Við þetta má bæta því að afföll verða mikil í þessu námi, þ.e. margir sem hefja leikinn kjósa að hætta honum þá hæst hann stendur. — Nú held ég að mér sé að fara eins og hæstv. félagsmálaráðherra, röddin er að gefa sig. Það er einhver vírus hér. — Stundum er sagt að menn uppskeri svo sem þeir sái. Það á því miður ekki við um þá sem velja þetta nám og þennan starfsvettvang. (Forseti hringir.) Launin eru skammarlega lág, bæði í innlendum og erlendum samanburði. Við hljótum að þurfa að lyfta þeim stéttum sem sinna menntun á þann stall sem þær verðskulda.