146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

kennaraskortur í samfélaginu.

[16:35]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, fyrir þessa afar nauðsynlegu umræðu. Ég vil einnig þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir svör hans. Ég vil nota tækifærið og beina sjónum sérstaklega að leikskólakennurum. Um það vil ég segja að þar ríkir ekki einungis skortur, við erum hreinlega komin út í eyðimörk hvað það lögbundna skólastig varðar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég stend hér og viðra þessar áhyggjur mínar og ég ítreka að við getum ekki leyft okkur að bjóða yngsta fólkinu okkar upp á að leggja af stað inn í framtíðina án þess að njóta leiðsagnar faglærðra leikskólakennara.

Ég vil beina athygli að OECD-skýrslu sem var gefin út árið 2015. Skýrslan heitir Starting strong IV þar sem rýnt var í gæði leikskóla OECD-landanna. Í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að eitt lykilatriði til að efla gæði í leikskólastarfsemi er að efla vinnuaðstæður, kennaramenntun og endurmenntun kennara. Þar var reyndar einnig ráðlagt að efla gagnaöflun, rannsóknir og mat á skólastarfinu.

Umræðan hefur talsvert snúist um laun kennara og minnkandi aðsókn í nám í tengslum við fimm ára háskólamenntun. Ég vil fyrir það fyrsta segja að mér, sem er faglærður leikskólakennari með fimm ára háskólanám, var gert kleift að vinna með þeim hætti sem skilgreindur er í skýrslu OECD. Ég mun með engum hætti styðja við styttingu náms leikskólakennara.

Ég vil spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort honum finnist æskilegt að hverfa frá þróun sem hefur leitt til eflingar faglærðra leikskólakennara með því að stytta nám fremur en að leita leiða til að efla kennaramenntun í tengslum við skólavettvanginn.